Endalausar brælur á loðnumiðunum.

Sælt veri fólkið, af okkur er allt þokkalegt að frétta nema hvað það gengur hálfilla að athafna sig við veiðarnar þessa dagana vegna stöðugrar ótíðar.

 Byrjuðum túrinn á því að rífa  nótina og urðum þess vegna að sigla inn í Helguvík og setja hana í land þar. Fengum að láni nót sem er að vísu töluvert minni en sú er rifnaði. Sumir segja reyndar að það sé bara betra því þá eru skammtarnir passlegri.

Erum komnir með rúm 250 T í frystinn hjá okkur og svo erum við með eitthvað af hrognaloðnu sem væntanlega fer í kreistingu í Helguvík í nótt eða á morgun. Fengum í 2-lesarnar í einu kasti seinnipartinn í dag og ættum þá að hafa eitthvað fyrir vinnsluna næsta sólahringinn.

Flestir karlarnir hérna um borð hafa það bara þokkalegt þessa dagana nema þá kannski helst  Man. United stuðningsmennirnir. Þeir eru alveg miður sín eftir leik sem lið þeirra lék síðastliðið þriðjudagskvöld á móti hinu ágæta liði Chelsea þar sem leikar fóru á þann veg að þeirra lið tapaði 2-1. Sérstaklega er  United-maður nr. 1 hér um borð með ýmsar samsæriskenningar varðandi dómgæsluna í leiknum. Hann er búinn að komast að því að amma dómarans sem dæmdi leikinn hafi  átt víngott við föðurbróðir sir Alex Fergusonar í heimstyrjöldinni síðari og átt með honum barn sem föðurbróðirinn vildi ekkert kannast við og að dómgæslan hafi verið einskonar hefnd vegna vangoldinna meðlagsgreiðslna. Ekki er nú öll vitleysan eins. Svona geta nú samsæriskenningarnar orðið þegar menn ferðast mikið um veraldarvefinn.  

Gullkorn dagsins er að þessu sinni: "Það eru tvennskonar menn, sem þú skyldir  aldrei eiga nein peningaviðskipti við; það eru vinir þínir og óvinir þínir."

Múffi kveður að sinni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband