Komnir með í hann!
3.2.2010 | 20:34
Jæja þessi loðnuvertíð ætlar að fara vel af stað, erum komnir með nægilegt hráefni til að fylla í frystilestina hjá okkur. Fengum í gær í einu kasti um 450 T og höfðum daginn áður fengið 150 T og svo voru félagar okkar á Vilhelm svo elskulegir í dag að gefa okkur úr nótinni hjá sér og passaði það í 3-lestarnar hjá okkur. Eiga þeir miklar þakkir skilið frá okkur fyrir það.
Vinnslan hjá okkur gengur alveg með ágætum þar sem hver einasta padda er fryst svo ná megi sem mestu verðmæti úr þessum rýra kvóta sem út var gefinn. Erum nú þegar þetta er ritað komnir með um 300 T í frystinn og það er nú ekki lítið frá því á mánudagskvöld.
Gullkornið að þessu sinni skal vera: "Frjálsar fóstureyðingar eru einungis studdar af fólki sem þegar hefur fengið að fæðast."
Nóg í bili Múffi kveður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Blogg á nýju ári.
1.2.2010 | 21:21
Jæja jæja gott fólk loksins kemur blogg á nýju ári. Betra seint en aldrei. Bloggritara langar að byrja á því að óska öllum lesendum síðunnar gæfuríks árs og þakkar fyrir heimsóknirnar og athugasemdirnar inn á síðuna á síðastliðnu ári.
Af okkur er það helst að frétta að skipið var í viðgerðarstoppi í desember og helminginn af janúarmánuði, engar stórvægilegar viðgerðir heldur meira svona viðhald. Hvað um það fyrsti túrinn var farinn á kolmunnaveiðar suður af Færeyjum og gekk hann ágætlega og var honum landað í Neskaupstað þ. 31-01. Frá Neskaupsstað fórum við í gærkvöldi til Eskifjarðar og tókum þar um borð loðnunótina og héldum þaðan til loðnuveiða snemma í morgun. Stefnan var tekin vestur fyrir Hrolllaugseyjar en þar fréttist af loðnutorfum. Fyrsta kastið okkar var eiginlega bara svona æfingakast því það var ekkert í. Nú þegar þetta er ritað erum við nýbúnir að draga kast nr.2 og fengum við úr því um 100 T sem er bara ágætt til að starta vinnslunni. Reyndar rifnaði nótin aðeins þannig að aflinn varð rýrari heldur en til stóð. Nótavaktin knáa stendur nú á haus við að rimpa saman nótina.
Gullkornið verður: "Neyðin kennir mönnum miklu oftar að ljúga heldur en að biðja."
Múffi kveður í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jólahlaðborð fyrir norðan
8.12.2009 | 09:22
Já góðir hálsar menn eru að tala um jólahlaðborð á laugardaginn 12.12.09 kl:20 og staðurinn er Lón sem er við Hrísalund, allir hvattir til að mæta hvort sem menn búa fyrir sunnan eða norðan og jafnvel austan já já og koma svo.
kv. nefndin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Veiðum lokið í þessum túr,landstím
1.12.2009 | 14:57
Sæl gott fólk, til hamingju með 1 des!! við drógum lokahol túrsins snemma í morgun og uppskárum 250 tonn þar um bil, það var svipað og skammtarnir síðustu daga, vorum heldur nettari á magninu eftir stóru holin í fyrri hluta veiðiferðarinnar. Líklegt að vinnslu ljúki upp úr miðnætti, hefur gengið vel á þeim bænum nema nokkur afföll á Marelvogunum hjá okkur en við sendum þær í skoðun og upplyftingu fyrir næstu veiðiferð sem verður jafnvel ekki fyrr en á árinu 2010. Veðrið leikur við okkur sem endranær, logn og nánast sléttur sjór, birtutíminn mjög takmarkaður eða öllu heldur skímutíminn, um 4 tímar, en ekkert til að kvarta yfir. Stefnum nú í löglegan brottfararstað við 200 sm löglögumörk Noregs og er fjarlægðin til Nes um þennan punkt 820 sm, þar um bil. Smá knattspyrnu-áfall varð um liðna helgi þegar Arsenal steinlá fyrir hrellingarliði allra rauðliða og höfðu menn á orði að rétt væri að senda suma á sólarströnd í Brasil heldur en að hafa þá í Arsnel búningi, en Múffi er örugglega sáttur með sína kalla sem stóðu sig mjög vel. gott að sinni.
Kv / Seán
Ekki er eftir það sem af er. hvorki tími né kvóti.!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
72°20mín Nb og 13°40mín A-lengd.
28.11.2009 | 16:19
Sæl á ný! erum lítið eitt norðar en við hófum veiðina, fengum 380 tonn á fimmtudag og svo 380 t í gærkvöldi, heldur meira en til stóð í þessum holum, en torfurnar eru mjög þéttar og ekki svo einfalt að taka hæfilega sneið úr þeim að sögn brúarmanna, en vonandi ná þeir þessu með meiri æfingu!! það er víst leiðin til að verða meistari í greininni!!??Vinnslan gengur allvel 350 tonn ca frosin og hráefni um borð í 100 tonn af flökum til viðbótar. Veðrið er svalara í gær og dag, létt haglél af og til en vindurinn golukaldi og sjólagið því sem næst ládautt, ekki þó alveg. Lítið frekar að frétta nema allt ágætt, en mönnum þykir óþarfi að taka sjómannaafsláttinn af, ætli mörgum landmanninum þætti ekki lítið varið í að sofa á vinnustaðnum þar til vinna hæfist aftur næsta morgun, vildu vísast fá eitthvað fyrir ómakið,fólk ætti að hugleiða það sem þau koma í verk bæði þarft og líka óþarft eftir vinnu, sem er ekki mögulegt þegar næsta vakt hefst eftir 6 eða 12 tíma og 10 eða 800 sjómílur til lands og svo er bónusinn á sjónum, þar er ekki þörf að láta rugga sér inn í draumalandið, af mannavöldum það er gjarnan innifalið í staðsetningunni á jörðinni , með sjómannaafslættinum, á sjónum er ekkert annað í boði en að halda sig á staðnum, þótt Pétur Blöndal gapi í þinginu yfir frystiskipi sem lá um tíma í höfn og frysti loðnu og áhöfnin fékk sjómannaafslátt á sama tíma, fá ekki þingmenn og fleiri dagpeninga og fjarlægðarálag ef þeir komast ekki í eigið rúm bæði síðdegis og að kvöldi??? og þykir sjálfsagt fyrir þvílíkt álag, ættu kanske að fá áfallahjálp líka??!! Margir virðast jú duglegir að skara að sjálfum sér og vinum sínum með kaup í hlutfalli við ábyrgð og líklega leyfa eftirlaunin meiri íburð en vatn og brauðskorpur!! svo skipta þeir óreiðunni bróðurlega niður á landsmenn sem mega vera sælir yfir að halda vinnu og húsnæði. og margir sjá ekki fyrir endann á skuldunum þótt þeir yrðu mjög langlífir og á góðu kaupi .
Kv / Séan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Afli úr fyrsta holi ca 450 tonn.
25.11.2009 | 17:59
Góðan dag lesendur, dagsbirtu naut stutt við í dag hér á norðurslóðinni, hálfrokkið 10,00 og varð lítið umfram það, myrkur 13,30 -14,00. ansi snubbótt. En sjórinn er sléttur og vindurinn gola eða nánast logn. Stutt tog gaf vel af sér, líkast til í efri mörkum, en ágætt engu að síður. Smá töf við dælingu aflans því olíuslanga við fiskidæluna gaf sig og tók dágóða stund að ná dælunni inn og skipta um gataða slönguna. Dýptarmælar þeirra brúarmanna sýndu engar lóðningar þegar til átti að taka, svo haft var samband við símavin brúarmanna!! hann Valda sem ýmsu kemur til leiðar, en þetta stóð í honum því að sjór hafði komið að utan, gegnum kapal frá botnstykki sem staðsett er neðan á skipinu og inn í kassa með rafm-búnaði sem olli því að aðrir kassar tengdir þessum sjóblauta fengu ekki rafmagn fyrr en sá sjóblauti var úr sambandi, þá fór að lóða hjá þeim, en þeir fiskuðu samt karlarnir en þurftu að nota hausinn aðeins meira. Vinnslan er komin í gang og gengur ljúft að venju!! Útstímið olli velgju hjá sumum, 1/2 bræla á móti okkur í 1 1/2 sólarhring, sumir ferskir úr fríi og aðrir ef til vill ekki alveg orðnir sléttir eftir Rokkhátíðina á Neskaupstað s.l. helgi. Múffi komin í fæði hjá betri partinum, enda var súpa algeng á útstíminu og hefði hann líkast til ekki flokkað það allt undir Krásir, en súpurnar voru ágætar, enda mennirnir sem skapa verðmætin helst láréttir á bekkjunum og komust af með minna, þeir þurfa jú að slappa af öðru hvoru!! Læt þetta gott heita að sinni..
Kv / Seán
Það verður sumum mönnum til óhamingju, að hamingjan hefur verið þeim of fylgispök.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bjarnareyja-fréttir
17.11.2009 | 12:23
Jæja gott fólk þá kemur aðeins meira blogg. Erum að hífa nú í þessum rituðum orðum með 4-punga rauða. Fengum ágætis hol í gær fylltum 2-3 og 1-sb. Vorum komnir með rúm 400 T í frystinn síðast á miðnætti. Vinnslan hefur gengið alveg með ágætum nokkuð hnökralaust að mestu.
Við fengum ekki nema tvö svör við spurningaleiknum sem brytinn okkar hleypti af stokkunum í síðustu bloggskrifum og voru þau bæði röng. Guadeloupe er frönsk eyja í vestur-indíum. Sá er svaraði að Guadeloupe væri útstímssúpa er búinn að vera illa haldinn af magakveisu síðustu daga.
Næsta spurning í spurningaleik brytans er : Hvað er Guacamole?
A: Eyja í Jómfrúar-eyjaklasanum.
B: Frjósemislyf.
C: Lárperumauk.
D: Eldfjall í Mexíco.
Lesendur er hvattir til að spreyta sig á þessum spurningum, brytinn varð frekar sár yfir dræmum undirtektum.
Læt hér fylgja með tvær myndir af sólarlagi/sólaruppkomu 140 sm sunnan við Bjarnarey.
Gullkornið verður: "Eiginkonan er móðir þín og barnanna."
Múffi kveður í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fyrsta lagið sigrað.
14.11.2009 | 10:49
Sælt veri fólkið. Köstuðum í nótt og híft aftur eftir stutt tog og dugði það til að fylla í 3-lestarnar og 1-sb. Það er alveg rífandi gangur í vinnslunni hjá okkur, sigruðum fyrsta lagið í frystilestinni í morgun.
Brytinn okkar er mjög áhugasamur um ferðalög og landafræði. Því stakk hann því að bloggritara hvort ekki væri sniðugt að setja upp smá spurningaleik á blogginu varðandi þetta efni. Tók bloggritari vel í það og stakk brytinn upp á því að fyrsta spurningin yrði eftirfarandi:
Hvað er Guadeloupe?
A: Strandbær í Mexico.
B: Flensulyf.
C: Eyja í Vestur-Indíum
D: Stöðuvatn í Alaska.
Lesendum síðunnar er velkomið að spreyta sig á þessari spurningu, brytinn bíður spenntur.
Læt hér fylgja með nokkrar myndir sem gönguklúbbsmenn tóku í síðustu inniveru er þeir gengu á Hádegisfjall í Reyðarfirði.
Galvaskir gönguhrólfar.
Toppmenn!
Útsýnið frábært
Gullkornið dagsins verður: Náttúran launar þeim ætíð, sem leita hennar og elska hana mest."
Múffi kveður að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Aftur komnir á miðin.
13.11.2009 | 09:22
Jæja gott fólk loksins meira blogg. Við lönduðum í Neskaupstað síðastliðinn þriðjudag 700 t í bræðslu og rúm 700 t í frost. Erum nú komnir á miðin norður af Lofoten og búnir að taka fyrsta holið. Fengum í 2-lestarnar og slatta í báðar 3-lestarnar. Fengum fínt veður á leiðinni hingað þannig að vel er búið að fara um karlana síðustu dagana.
Bloggritari er hæstánægður með stöðu sinna manna í enska boltanum þessa dagana en "United"-karlarnir eru ekki eins kátir. Í kjölfar leiksins um síðustu helgi heyrðust fleygar setningar einsog: "Þetta var ólögleg aukaspyrna." "Það eru tólf menn í Chelsea liðinu." "Þetta var ólöglegt mark." "Djöfull er Drogba ljótur." Gráturinn í þessum mönnum er næstum því farinn að toppa Liverpool-grátkórinn.
Annars bara allt gott að frétta af okkur og gullkorn dagsins verður: "Svipstundar óvirðing getur oft af sér ævilanga mæðu."
Múffi segir yfir og út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Landstím.
8.11.2009 | 12:19
Jæja gott fólk, þá er þessum túr að ljúka. Við sigruðum frystilestina á vaktaskiptunum í morgun. Ættum að verða komnir í land seinnipartinn á mánudaginn og þá löndum við væntanlega í bræðslu aðfaranótt þriðjudags og upp úr frystilestinni á þriðjudaginn. Túrinn er búinn að ganga alveg með ágætum enda nóg af síld í lögsögunni hjá norsku vinunum okkar. Þurftum að taka á okkur um 30 sm krók til að sigla í ákveðinn punkt, áður en norska lögsagan er yfirgefin, svo "kystvakten" geti gefið okkur brottfararleyfi frá Noregsströndum.
Annars eru "United" - karlarnir um borð orðnir frekar kvíðnir fyrir leik dagsins þar sem borið hefur á lystarleysi og jafnvel niðurgangi í þeirra röðum nú síðustu daga.
Arsenal gengið er í sjöunda himni þessa dagana enda er góður skriður á þeirra liði. Matsveinninn okkar leikur við hvern sinn fingur þessa dagana og reiðir fram hverja veisluna af fætur annarri. Hann lætur eins og nýhreinsaður hundur, í orðsins fyllstu merkingu.
Gull kornið verður: "Vitrastir eru þeir, sem best geta lagað ókosti sína."
Og með þeim orðum kveður Múffi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)