Hengdir upp á þráð.

Sælt veri fólkið.

Aflabrögð og veðurfar með ágætum, erum nýbúnir að hífa og nægði það til að fylla í 3-lestarnar. Ættum þá að hafa nægt hráefni eitthvað fram á morgundaginn. Erum komnir með um 280 T í frystinn  og vinnslan  gengur bara nokkuð vel.

Fengum í dag heimsókn um borð frá danska eftirlitsskipinu Vedderen. Menn voru allir eins og hengdir upp á þráð því annar af eftirlitsmönnunum var ung og bráðmyndaleg stúlka. Rakspíralyktin angaði um gangana og hvaðeina.  Þessi röskun stóð sem betur fer stutt yfir og lífið komst aftur í eðlilegt horf.

Gamanmál dagsins verður að þessu sinni:"Ég keypti mér ferð til Spánar svo eiginkonan hefði meiri tíma með börnunum."

Múffi kveður í bili.


Enn á Kolmunna.

Jæja gott fólk. Lönduðum í Neskaupsstað síðastliðin sunnudag 700 T af heilfrystum kolmunna og um 100 T af gúanói.

Vorum komnir aftur á miðin suður af Færeyjum í gærkvöldi og köstuðum trolli um miðnættið. Híft var um tíu-leitið í morgun og fengum við rúm 100 t í því holinu, ágætis slatti til að starta vinnslunni. Erum í þessum rituðu orðum að hífa með aðeins  tvo punga rauða, en það ætti nú að duga okkur í vinnslunni.

Gamanmál dagsins verður að þessu sinni: " Ég held rúminu heitu fyrir konuna á meðan hún hitar upp bílinn og skefur af rúðum."

Og með þeim orðum kveður Múffi


Landstím.

Sælt veri fólkið.  Hífðum um miðjan dag í gær um 100 t og höfum við þá nóg hráefni  til að fylla í frystilestina. Lögðum af stað í land seinnipartinn í gær og er áætlað að við verðum komnir inn á Norðfjarðarflóa um ellefuleitið í kvöld. Frystilöndun er fyrirhuguð á morgun, sunnudag.

Gullkorn dagsins er: "Hinn heilbrigði hefur þúsund óskir, hinn veiki aðeins eina."

Múffi kveður í bili.


Hákonspistill

Sælt veri fólkið og gleðilegt sumar. Hér eru allir í sumarskapi rífandi gangur bæði í vinnslu og veiðum. Köstuðum í gær rétt fyrir hádegi og drógum fram eftir degi og hífðum seinnipartinn. Fylltum á 3-lestarnar og tókum slatta í aðra 1-lestina. Vinnslan gengur með ágætum ættum að vera komnir með um 400 T í frystinn um hádegisbilið í dag.

Gullkorn dagsins verður: "Lífið á ekki að vera skáldsaga sem við fáum að gjöf, heldur saga sem við semjum sjálf."

Nóg í bili Múffi kveður.


Hákonsfréttir.

Sælt veri fólkið.

Lönduðum í Neskaupsstað síðastliðin laugardag rúmum 700t af heilfrystum kolmunna ásamt slatta í bræðslu. Vorum svo komnir aftur á miðin suður af Færeyjum snemma í gærmorgun. Fyrsta holið kom inn fyrir í gær og var það nóg í 2 og 3 lestarnar.  Vinnslan fór bara vel af stað og erum við búnir að frysta um 120t nú þegar þetta er ritað.  Það brældi reyndar á okkur aðeins í gærkvöldi en sú bræla tók fljótt af, erum að renna trolli í sjó nú í þessum rituðu orðum.

Gullkorn dagsins er: "Það var leiðinlegt í saumaklúbbnum í kvöld - það mættu allar".

Múffi kveður að sinni. 


Lagðir af stað í land:)

Sælt veri fólkið.

Nýjustu fréttir af okkur eru þær að aftari frystilestin var sigruð rétt eftir hádegi í dag og ættum við því að vera búnir að fylla þá fremri annað kvöld.  Hífðum um vaktaskiptin í kvöld um 200 t og lögðum af stað í land og er fyrirhuguð löndun í Neskaupsstað á laugardag. 

 Gullkorn dagsins  verður: "Það er aldrei of seint að bæta sig, en það er allt í lagi að bíða svolítið með það."

Múffi kveður í bili.


Gerum útrásarvíkingana útlæga um aldur og ævi!

Jæja gott fólk þá koma loksins fréttir af okkur. Fórum frá Reykjavík þann 9-4 ,eftir hálfs mánaðar páskastopp, áleiðis á kolmunnamiðin suður af Færeyjum. Tókum fyrsta holið síðastliðin sunnudag og  fylltum 1 og 2 lestarnar og erum nú þegar þetta er ritað nýbúnir að fylla aftur á 2-lestarnar.  Vinnslan hefur gengið með ágætum erum komnir með um 200 t í frystinn.

Annars bara allt gott að frétta af mannskapnum menn eru svona að jafna sig eftir að hafa hlustað á úrdrætti úr skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Upp komu hugmyndir um hvernig best væri að refsa þeim bankamönnum og stjórnmálamönnum sem að þessu sukki komu. Menn eru sammála um að allt of dýrt sé að fara í málaferli út af þessum málum heldur væri best að gera eigur þessara manna bara upptækar og svipta alla þessa menn ríkisborgararéttinum og gera þá útlæga eins og gert var til forna hér á landi. Þessum mönnum ætti að vera óheimilt að koma til landsins um aldur og ævi. Þetta væri bara hægt að gera strax í sumar með því að kalla saman þing á Þingvöllum með fulltrúum almennings úr öllum landsfjórðungum. Síðan yrði þessum mönnum smalað upp í flugvél og flogið með þá úr landi og við þyrftum ekki að hafa meiri áhyggjur af þeim. Ef þessir menn svo reyna einhvertíma að koma inn í landið aftur þá látum við þá fá sömu meðferð og  meðlimir  glæpasamtakanna "Hells Angel´s"   fá við komuna til landsins.

Gullkorn dagsins í dag verður: "Það er auðveldara að bera hvert mótlæti sem er, heldur en slæmt mannorð."

Múffi kveður í bili.


Bræla og fiskleysi :-(

Sælt veri fólkið.  Það hefur nú ýmislegt á daga okkar drifið frá síðustu bloggfærslu. Það helsta að  yfirvélstjórinn okkar hann Sigurður Þorláksson varð fyrir því óláni að detta og handleggsbrjóta sig í leiðinni. Hann fékk far með Aðalsteini Jónssyni í land til aðhlynningar og heilsast eftir atvikum vel. Það var svo landað ríflega sjöhundruð tonnum af frosnum kolmunna í Neskaupstað 19. mars síðastliðinn og haldið aftur til veiða þá um kvöldið.  Skemmst er frá því að segja að það er búin að vera bræla síðan við komum á ætluð kolmunnamið og höfum við ekki bleytt í veiðarfærunum. Eitthvað er að slá á veðurhæð í augnablikinu en engan fisk að sjá. Áhöfninni er orðin nokkuð langeyg eftir fiski að handleika en lundarfarið er ennþá gott hjá flestum ef ekki bara öllum. Við viljum senda drottningunum í landi okkar bestu kveðjur og minna þær á að allir túrar taka enda:). Og með því kveður Marri og segir yfir og út.

Spakmælið: Jafnvel fegursta kona getur ekki gefið meira en hún á.

Es. Nú fer hver að verða síðastur að heita á okkur í hópakeppni mottumars, slóðina má finna hér á siðunni fyrir neðan. Vil ég skora á fyrirtækið að láta fé af hendi rakkna í þessa þörfu söfnun og um leið að þoka okkur hærra á listann í áheitakeppninni.


Afli úr fyrsta holi 160 tonn, híft 05.00. 12 mars.

Sælir lesendur Hákons-frétta, við fórum frá Neskaupstað s.l. þriðjudagskvöld, fengum ágætt veður á suður-leiðinni SV golukaldi og smá stamp. Köstuðum svo upp úr miðnætti s.l.  um 650 sm , eða 1200 km, Suður af Íslandi ca 54° 11 mín Nb og 16°40 mín V- lengd.  Vinnslan hefur gengið með smá tilbrygðum en ekkert til að kvarta yfir. Veðrið er hreinasta vorblíða, andvarai og ekki undir 10°C. sól um tíma í dag, svo ekki væsir um okkur. Smá óhapp varð við brottför frá Nesk-  Jói G hennar Guðrúnar Ingu klemmdi löngutöng anarrar handar og varð hann eftir í landi, óbrotin að talið er en nöglin drógst af og beinið undir  henni brákaðist, hann jafnar sig vonandi fljótt af þessari skeinu!!!                        Læt  heita  þetta gott að sinni.

                                                                     Kv / Seán


Mottukeppnin um borð í Hákon.

Sælt veri fólkið.

Í tilefni af átaki Krabbameinsfélags Íslands ,Karlar og krabbamein,  er skollin á mottukeppni hér um borð. Við skorum á alla að heita á okkur og styrkja gott málefni í leiðinni.  Hægt er að skoða myndir af keppendum inni á slóðinni:  http://www.karlmennogkrabbamein.is/keppnin/keppandi?cid=1074

Læt hér fylgja með tvær myndir af efnilegustu keppendunum.

IMG_7414 Þetta er mjög líklegur sigurvegari!

IMG_7416 Ekki ósvipaður Chuck  Norris!

IMG_7429 Ein mynd af öllum keppendum - flottastir!

Gullkornið að þessu sinni skal vera: "Sá sem á minni auðæfi en hann óskar, ætti að hafa það hugfast, að hann á meira en hann á skilið".

Múffi kveður í bili og fer í frí.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband