Lönduðum ríflega 700 tonnum í gær.
28.9.2009 | 15:41
Sæl öll sem enn skoðið hvort fréttir hafi lent á síðu hér!! Engar fréttir hér voru vissulega góðar fréttir meðan síðasti túr stóð, fengum 80% af aflanum í tveimur holum og enn vorum við í samtogi með Vilhelm Þorsteinss, veiði og vinnsla gekk sem sagt mjög vel og lágum við í mynni Hellisfjarðar við ankeri síðustu 2 sólarhringana í vinnslu, þar var skjól fyrir öldugangi en talsverður strekkingur af og til. Nú er hafin ný veiðiferð og stefnan austur nálægt 3° V-lengdar og 66°45mín N-breidd, um það bil staðsetning!!!?? Vorum að þokast austur og S-austur í síðustu veiðiferð að 5°V-lengd og álíka norðarlega og stefnt er á nú. Útlit er fyrir að við byrjum að toga einir núna því áðan var vaktin að stilla hlerunum upp fyrir okkar troll, Vindur er allhvass VNV ( vest-norð-vestan ) en ágætlega fer á hjá okkur. Vonandi lenda hér fáeinar línur seinna í túrnum!!??
Kv / Seán
Fyrirhyggjan hindrar margan höfuðverkinn.
Við berum ábyrgð!!, ekki aðeins á því sem við gerum og erum líka látin bera ábyrgð að því sem við gerum ekki,, fjármálaeftirlit / bankastjórnendur / ríkisÓstjórn / útrásarþjófar/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Löndun næstkomandi laugardag.
17.9.2009 | 12:15
Jæja gott fólk, gangafréttum og stjórnpallsfréttum ber saman um að löndun sé fyrirhuguð næstkomandi laugardag. Fengum ágætis hol í nótt sem við deildum með félögum okkar á Vilhelm og eru þeir nú lagðir af stað í land til að létta á sér í kvöld. Við aftur á móti erum núna að taka smá tog með gæðalega skipstjóranum á Hábergi EA, Geir F Zoega. Vonandi verður þetta hjálparstarf öllum til góða.
Annars er það helst að frétta af köllunum að þeir eru flestir sáttir við úrslitin úr meistaradeildinni þessa vikuna þrátt fyrir að það hafi verið lágt risið á Arsenal mönnum í fyrri hálfleik í leiknum í gærkvöldi. Einnig höfðu menn á orði að það væri skemmtilegra að horfa á málningu þorna heldur en að horfa á Liverpool leika.
Hvað um það við erum komnir með um 450 T í frystinn og tala menn um að þetta gæti orðið mettúr miðað við slattana sem landað hefur verið upp á síðkastið.
Gullkornið verður: "Augu húsbóndans gera meira en hendur hans."
Nóg í bili Múffi kveður og fer í fríið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hákonspistill.
12.9.2009 | 21:32
Jæja gott fólk við lönduðum í Neskaupstað í gær og í nótt, um 500 T af frosnu og 300 T í bræðslu. Héldum aftur á miðin um fimmleitið í morgun. Áfram verður haldið með hið ágæta samstarf við félaga okkar á Vilhelm Þorsteinsyni og erum við nú að toga á móti þeim nú þegar þetta er ritað. Þeir köstuðu sínu trolli upp úr hádeginu í dag og um kvöldmatarleitið skildist mér að allir aflanemar væru komnir inn. þannig að það styttist væntanlega í hífopp hjá þeim og vonandi verða þeir aflögufærir með afla svo bæði skipin nái að koma vinnslunni í gang.
Annars komu karlarnir ágætlega undan þessari inniveru, sumir fóru í golf, aðrir aðrir fóru í fjallgöngur og hinir fóru á kaffihús. Svo sátu menn spenntir yfir enska boltanum í dag og urðu sumir glaðir með úrslit leikja en aðrir voru ekki eins glaðir. Eins og brytinn okkar sagði í dag, þegar undirritaður sýndi honum hluttekningu, að þá var Arsenal ekki að falla niður um deild heldur aðeins að lúta í lægra haldi fyrir öðru liði í upphafi leiktíðar. Menn geta nú ekki annað en dáðst af andlegum styrk svona manna, ég seigi nú ekki annað.
Gullkornið verður: "Að vera hamingjusamur er ekki í því fólgið að eiga mikið, heldur í því að elska mikið og vona."
Og með þeim orðum kveður Múffi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bræla á miðunum.
9.9.2009 | 11:18
Jæja gott fólk, í gærkvöldi skall á okkur bræla en sem betur fer þá náðum við að ná okkur í hráefni áður en hún náði hámarki. Reyndar voru smá æfingar á okkur, fiskislanga slitnaði við hné og leit ekki vel út á tímabili. En þeir voru snöggir að leysa úr þessu karlarnir á dekkinu undir ákveðinni og fumlausri stjórn "Fjarkans".
Vonir standa nú til að þessi bræla verði skammvinn þannig að félagar okkar á Vilhelm ættu að fá hráefni til vinnslu í dag.
Erum nú þegar þetta er ritað komnir með um 280 T í frystinn.
Gullkorn dagsins er:"Tortryggna menn skortir aldrei hugarburð til að ala grunsemd sína."
Múffi kveður í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Úrslit golfmótsins.
6.9.2009 | 10:28
Jæja þá erum við aftur komnir á sjó og komnir með afla og byrjaðir að vinna. Hífðum í morgun 50-60 m3 af ágætri síld með smá makrílívafi.
Fórum út frá Neskaupstað rétt eftir miðnætti aðfaranótt laugardagsins eftir að hafa landað þar um 470 T af heilfrystri síld og nokkur tonn af hausskornum makríl.
Í þessum túr þá má eiginlega segja að við höfum verið dregnir út í fiskistofulottóinu, því við fengum örugglega um borð til okkar fallegasta veiðieftirlitsmanninn sem fiskistofa hefur völ á. Veit ekki hvort félagar okkar á Vilhelm hafi verið eins heppnir.
Hvað um það í inniverunni síðustu var haldið hið árlega Oddgeirsmót í golfi og voru úrslitin sem hér segir:
Án forgjafar: 1. Jón Gunnar Traustason 2. Sveinn Ísaksson 3. Benidikt Sveinsson
Með forgjöf: 1. Ingi Jóhann Guðmundsson 2. Halldór Jónasson 3. Bjarni Gunnarsson
Áhöfn Hákons EA-148 óskar vinningshöfum til hamingju með árangurinn og vonast til að sjá alla þátttakendur aftur að ári.
Gullkornið verður:"Hin sanna gleði er ekki ávöxturinn af þægilegri ævi, auðæfum, eða viðurkenningu annarra, heldur vitundin um að hafa unnið gott starf."
Múffi kveður að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Löndun á morgun.
3.9.2009 | 09:47
Jæja gott fólk. Nú er útlit fyrir að það verði landað í Neskaupstað á morgun föstudag. Erum komnir með um 370 T í frystinn og erum með hráefni í vinnslu fram að hádegi á morgun. Hífðum í morgun rétt fyrir vaktaskipti um 70 T og erum nú að draga með makkernum. Væntanlega landar hann á sama tíma og við.
Frést hefur að víkingarnir að sunnan hafi fengið flugsæti hingað austur þannig að Oddgeirsmótið í golfi ætti að verða haldið í þessu löndunarstoppi.
Spakmæli dagsins verður:"Láttu ekki augað hlaupa yfir eyrað né tunguna eins langt og fæturna."
Múffi kveður að sinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Brælublogg
30.8.2009 | 10:50
Sælt veri fólkið. Fórum út frá Neskaupstað um ellefu-leitið síðastliðið fimmtudagskvöld eftir að hafa landað þar um 520 T af frosnu og 330 T í bræðslu. Vorum komnir með afla til vinnslu rúmum sólahring seinna og erum nú langt komnir með að vinna hann. Komin rúm 100 T í frystinn hjá okkur. Í gær byrjaði svo að bræla hjá okkur og sér ekki fyrir endann á þeirri brælu fyrr en með kvöldinu.
Flestar boltabullurnar eru ánægðar með úrslit gærdagsins nema þá helst Arsenal-bullurnar, þeir voru frekar framlágir eftir viðureign sinna manna við Man United. Tala menn um að sigur Man United hafi verið óverðskuldaður þar sem um ódýra vítaspyrnu hafi verið um að ræða. En svona er víst fótboltinn það er ekki alltaf betra liðið sem sigrar. Sem betur fer þá tapaði Bolton sínum leik í gær því töluverðrar þreytu er farið að gæta hjá áfallateyminu.
Gullkorn dagsins verður:"Endurminningin er sú eina paradís, sem vér getum aldrei orðið flæmdir úr."
Múffi kveður að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Löndun á fimmtudag.
26.8.2009 | 10:32
Jæja gott fólk, það er ekki hægt að segja annað en að það sé búið að ganga ágætlega hjá okkur þennan túrinn. Vinnsla hefur haldist stöðug allan túrinn og gengið með ágætum. Til stendur að landa á morgun, fimmtudag, þó svo að frystilestin sé ekki orðin full. Ættum að geta landað um 500 t í frost og einhverjum slatta í bræðslu.
Annars er búið að vera ákveðin áfallahjálp í gangi hér um borð eftir að enska liðið Aston Villa sigraði mótherja sína í síðustu umferð enska boltans. Nokkuð margir áhafnarmeðlimir halda með liðinu sem tapaði í þessari viðureign og hafa þeir þurft á sérstakri aðhlynningu að halda svo að starfsemi skipsins raskaðist ekki.
Til stóð að halda Oddgeirsmótið í golfi í þessari inniveru en því var slegið á frest því það er víst skortur á lausum flugsætum fyrir stórlaxana að sunnan hingað austur. Ef árið 2007 væri nú, þá hefðu menn nú ekki dáið ráðalausir út af svona smámunum.
Gullkorn dagsins er: "Sannleikurinn bíður ekki tjón við það að vera sleginn í andlitið."
Múffi kveður að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hákons-fréttir !
22.8.2009 | 16:51
Sælt veri fólkið.
Við fórum út frá Neskaupstað um miðnættið síðastliðið fimmtudagskvöld áleiðis á miðin austur af landinu. Okkar trolli var svo kastað í morgunsárið daginn eftir og var það dregið með makkernum fram að hádegi. Þá var híft og tókum við afla í 2-lestarnar en félögum okkar á Vilhelm eftirlétum við restina úr því holinu. Bæði skipin voru komin með vinnslu í gang um miðjan dag í gær. Í morgun kastaði svo Vilhelm sínu trolli, eitthvað var það nú óklárt í fyrstu en síðan hvarf allt lóð og ákveðið var að hífa um hádegið og fara að leita á svæðinu.
Erum komnir með um 90 t í frystinn af heilfrystri síld.
Af körlunum er það helst að frétta að "United"-karlarnir eru farnir að brosa á ný eftir leiki dagsins og virðast þeir vera komnir upp úr þeim öldudal sem þeir voru í í vikunni.
Gullkorn dagsins er: "Ef þú gleymir guði meðan þú lifir, máttu búast við að hann gleymi þér, þegar þú ert dauður."
Múffi kveður að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Löndun í dag á Neskaupstað
20.8.2009 | 10:34
Jæja gott fólk í dag er ætlunin að landa um 400 t af heilfrystri síld í Neskaupstað og einhverjum smá slatta í bræðsluna. Ákveðið var að nota brælutíðina á miðunum til að létta á sér. Félagar okkar á Vilhelm landa einnig í dag þannig að bæði skipin ættu að vera skotklár í áframhaldandi samvinnu að löndun lokinni.
Annars allt gott að frétta af mannskapnum. Flensugemlingarnir eru að jafna sig og vonandi er sú óværa gengin yfir. "United"-karlarnir um borð dálítið niðurdregnir eftir leik gærkvöldsins en að sama skapi halda "poolararnir" að þeir séu að sigra heiminn eftir sigur á fyrrum íslendingaliðinu Stoke.
Gullkorn dagsins verður: "Hjónabandið er svo vinsælt, vegna þess að þar fer saman hámark freistinga og hámark tækifæra."
Múffi kveður í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)