Túrinn kláraður í síld
18.8.2010 | 21:01
Jæja gott fólk. Erum núna komnir á síldarmið úti við lögsögumörk austur af Langanesi. Vorum búnir að vera að veiða makríl síðustu þrjá daga en erum nú næstum búnir að klára þann kvóta þannig að nú fær síldin að kenna á því.
Það er nú eiginlega algjör synd og skömm að þeir sem í fyrra mokuðu upp makrílnum og lönduðu honum í bræðslu og hugðu aðeins að magninu sem að landi kom, skulu nú eiga eftir mest af úthlutuðum kvóta. Það borgaði sig greinilega að ganga um þessa nýju auðlind á skítugum skónum og moka þessu öllu í bræðslu.
Þeir sem í fyrra reyndu að gera sem mest verðmæti úr makrílnum með því að vinna hann til manneldis og lönduðu þar af leiðandi minna magni en meira verðmæti. Þeim var refsað fyrir það og var úthlutað eftir lönduðu magni en ekki eftir því hve mikið verðmæti þeir komu með að landi. Svona eru nú ákvarðanirnar teknar í sjávarútvegsráðuneytinu - eða voru þær ekki teknar þar?
Annars allt gott að frétta af mannskapnum erum komnir með rúm 400 t í frystinn hjá okkur og er áætlað að það verði landað í Neskaupsstað næstkomandi laugardag.
Gullkorn dagsins verður að þessu sinni: "Piparsveinn er maður sem lítur hjónabandið alvarlegum augum."
Múffi kveður að sinni
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.