Meiri loðnukvóta strax!
17.2.2010 | 21:22
Jæja gott fólk þá erum við komnir á landleið úr þriðja loðnutúrnum þessa vertíðina. Tókum fyrsta kastið í þessum túr rétt vestan við Ingólfshöfða síðastliðinn sunudag. Fengum svo gefins frá færeyska skipinu Norðborg um 160 T í gær rétt austan við Vestmannaeyjar. Í dag tókum við svo sjálfir eitt kast um hádegi í sem gaf okkur um 120 T. Erum við þá komnir með nægt hráefni til að frysta og ættum að ná að landa um 700 T af frosinni loðnu í Neskaupsstað næstkomandi föstudag.
Svo er bara spurning með framhaldið. Hafa menn þann dug í sér að gefa út meiri kvóta áður en það verður um seinan. Í þessu tilfelli er hik sama og tap. Ég er viss um að þessir ágætu fiskifræðingar okkar séu að vinna vinnuna sín af alúð og samviskusemi en spurningin er var það ekki bara loðnan sem þeir sáu sem þeir töldu? Eða voru þeir að telja loðnuna sem þeir sáu ekki?
Í okkar tilfelli eru um 350 T eftir af kvótanum og ef allt gengur eftir verðum við búnir að veiða það næstkomandi mánudag. Það er algjört stórslys ef skip sem er búið að vera að frysta fyrir hátt í 200 milljónir á 19 dögum skuli þurfa að stoppa á meðan að misvitrir stjórnmálamenn draga lappirnar í að taka ákvarðanir. Bloggritari skorar á sjávarútvegsráðherra að taka strax ákvörðun um að auka loðnukvótann áður en það verður of seint. Loðnan er ekkert að bíða.
Gullkorn dagsins verður að þessu sinni: "Þeir eru svo fáir, sem verða nokkuð vegna þess, að þeir eru svo margir, sem ímynda sér, að þeir séu eitthvað."
Múffi kveður.
Athugasemdir
Góðan daginn. Gott að heyra hvað þetta gengur vel og vonandi kemur gott svar í dag frá þeim sem að ráða og það væri þá gott að þið munduð nú bara landa aftur annan föstudag, það væri svo gott mig að fá manninn heim fyrir 27febr. Gangi ykkur vel og ég bið að heilsa.
Regína (IP-tala skráð) 18.2.2010 kl. 10:22
Sælir strákar.Ég samgleðst yfir gengi hjá ykkur og skil,hvað þið eruð að hugsa.40 ár reynsla á loðnuveiðum og eilífð barátta við fiskifræðinga.
Því miður eru bæði fiskifræðingar Hafró og heilabúið hjá ráðherrum svo seinvirkt að niðurstaða þeirra kemur jafnvel alltof seint.Ég veit það að hver dagur skiptir miklu máli.T.D.Í hittifyrra töpuðust margar milljónir á einni viku,þar sem að þegar leyfið fékkst til meiri veiði kom þegar loðnan var lögst til hrygningar.Ég vona að þeir verði fyrri til núna,og gefi út meiri kvóta,ekki seinna,en í dag.
Ingvi Rúnar Einarsson, 18.2.2010 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.