Frumburar og örverpi.
9.2.2010 | 20:48
Sælt veri fólkið.
Köstuðum tvisvar í gær og fengum ekkert út úr fyrra kastinu en úr seinna kastinu fengum við í allar lestar og áttum afgang sem dælt var um borð í Börk NK. Þannig að við erum með nóg hráefni fyrir vinnsluna næstu daga. Reyndar urðum við fyrir vonbrigðum með hve lítið hlutfall var af hrygnu í þessu kasti sem gerir það að verkum að ekki svarar kostnaði að vera að frysta á Japansmarkað þannig að Rússarnir njóta bara góðs af.
Bloggritari þakkar fyrir innsendar athugasemdir og kveðjur. Í kjölfarið á einni kveðjunni vaknaði sú spurning hver væri örverpið hennar Ástu. Eftir töluverðar fyrirspurnir í hópi yngri manna um borð þá reyndist örverpið vera maður á fimmtugsaldri og svarar nafninu "Boris". Í kjölfarið urðu heilmiklar umræður um það hverjir væru örverpi og hverjir væru frumburðar. Talað var um að stofna samstöðufélagskap örverpa og frumbura. Reyndar vildu frumburarnir ekki vera í félagi með örverpum einhverra hluta vegna. Brytinn okkar vildi stofna félag einbirna þar sem hann tilheyrir í raun báðum hópunum.
Annars bara létt yfir mannskapnum nægt hráefni fyrir vinnsluna og frystingin gengur vel.
Gullkornið að þessu sinni er: "Konur elska hinn sterka og þögla mann, vegna þess að þær halda að hann sé að hlusta".
Múffi kveður að sinni.
Athugasemdir
Gaman að fylgjast með ykkur
Guðmundur St. Valdimarsson, 10.2.2010 kl. 06:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.