Færsluflokkur: Bloggar
Fer rólega af stað
7.11.2008 | 07:57
Góðan dag! Það viðraði loksins í gærmorgun til að kasta og voru kapparnir mættir gallvaskir inn á Kiðeyjarsund þegar birti. Náðum að kasta einu sinni og fengum rúm 100 tonn. Eftir það var síldin ekki í veiðanlegu ástandi, allavega ekki fyrir okkur. Síldin virðist bara gefa kost á sér yfir birtutímann og lögðumst við á meltuna eftir að dimma tók í gær. Það bar þó helst til tíðinda í gær að það urðu mannaskipti í brúnni og kom Guðjón um borð en Björgvin þurfti að komast í land. Setti nokkrar myndir inn í gær, svona í tilefni fyrsta kastsins á þessari haustvertíð hjá okkur. Marri kveður og segir yfir og út.
Spakmælið: Illt er að hefta heimfúsan klár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Komnir á heimamiðin
5.11.2008 | 07:29
Góðan dag! Lönduðum í Neskaupstað sl. sunnudag rúmum sjöhundruð tonnum af frosnum afurðum og svipuðu magni í bræðslu. Vorum svo í Helguvík í gær að taka nót um borð. Erum nú komnir á síldarslóð við innanvert við Snæfellsnes. Búið að vera bölvað rok hér það sem af er degi en vonandi lægir sem fyrst þannig að hægt verði að kasta. Annars allt gott af öllum og Marri segir yfir og út.
Spakmælið:Allir hlutir eru svartir í myrkri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á landleið með fullt skip.
30.10.2008 | 18:57
Jæja þá er þetta nú að hafast. Settum á fulla ferð áleiðis til Neskaupstaðar um sjöleitið í dag. Fengum ágætis afla í gærkvöldi og svo var þetta klárað í morgun. Verðum búnir að fylla frystinn upp úr miðnætti í kvöld þannig að það verður nægur tími til þrifa þar sem við verðum ekki í landi fyrr en á seinnipart laugardags. Veit ekki hvort maður bloggar nokkuð meira fyrr en í næsta túr. Það fer þó eftir því hvort það verða einhverjar fréttir. En í bili segir Marri yfir og út.
Spakmælið:Tortryggna menn skortir aldrei hugarburð til að ala grunsemd sína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Haldið til hafs á ný.
29.10.2008 | 08:58
Góðan dag! Þá erum við lausir allra mála í Noregi. Það fór svo að gerð var dómssátt í málinu og sektargreiðslur fyrir að hafa verið að veiðum inná friðuðuðu svæði. Sektargreiðslur voru í samræmi við þann afla sem hvert skip aflaði í hinu lokaða svæði þannig að í þessu tilfelli hefði verið best ef það hefði verið tregfiskirí, sem var ekki í okkar tilfelli. En nú er þessum kapítula lokið og vonandi verður hann til þess að menn dragi lærdóm af honum.
Fórum frá Fugleyjarfirði upp úr átta í gærkvöldi áleiðis til síldarmiða. Okkur vantar rúm 100 tonn í frystinn og standa vonir til að afli til að fylla það skarð náist í dag. Marri kveður og segir yfir og út.
Spakmælið: Oft eru það smælingjarnir, sem leggja til efni í blómsveig mikilmennisins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nú sér ekki fyrir endann á þessu.
27.10.2008 | 19:13
Sælt veri fólkið. Þeir sem hafa fylgst með fréttum vita núna að við erum komnir í var upp við Noregsstrendur og vill norska strandgæslan koma um borð. Það kemur nú til af því að norðmenn vilja meina að við höfum verið að veiðum inn í lokuðu hólfi, vilja þeir kanna aflasamsetningu og veiðidagbækur. Þó að það breyti engu fyrir okkur þá erum við ekki eina íslenska skipið sem liggur undir þessum grun. En hvað sem því líður þá vonumst við eftir skjótri og góðri úrlausn okkar mála.
Það er komin hörku umræða um rjúpnalandið og öll þau mál. Vil ég þakka Heiðu sérstaklega fyrir hennar innslag. þar kemur alveg nýr vinkill á málið. Ég á sjálfur bágt með að trúa að þessar leigutölur hafi stoppað Hákonsmenn. Eða er einhver maðkur í misunni varðandi skiladag tilboða? Marri kveður frá Noregsströndum og segir yfir og út.
Spakmælið: Við erum öll í sama báti - þó við ekki stýrum öll.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Senn fer að sjást fyrir endann á þessum túr
25.10.2008 | 19:19
Sælt veri fólkið! Það hefur gengið bærilega hér hjá okkur í norðurhöfum eða á maður að segja í Noregshöfum. Hækkuðum upp í efsta gat í morgun og ganga veiðar vel. Síldin sem við fengum í gær er nokkuð blönduð en það sem við tókum í dag er jafnari og stærri síld. Á morgun ættu að vera komnar einhverjar línur í hvenær við verðum í landi en reiknað er meið þriggja sólarhringa landstími.
Heitar umræður eru á göngunum út af rjúpnalandinu og sýnist sitt hverjum. Upp er komin athyglisverð samsæriskenning um orsakir þess hvernig fór. það hefur verið gefið í skin ákveðin tengsl milli þess sem fékk landið og eins forvígismannanna hér um borð. Látið er liggja að fjölskyldutengslum og ef svo er þá er þetta háalvarlegt. Ég mun fylgjast með málinu og flytja fréttir um leið og þær gerast.
Marri kveður og segir yfir og út.
Spakmælið:Það þarf sterk bein til að standast góða daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Gengið vel fram að þessu
23.10.2008 | 07:24
Góðan dag! Þurftum ekki að leita lengi að silfrinu eftir að við komum á svæðið. Það virðist vera nóg af síld hérna og höfum við ekki þurft að toga trollið lengi fyrir þessi tonn sem komin eru um borð. Erum að láta trollið fara í þriðja skiptið í þessum skrifuðu orðum. Væntanlega verður hækkað um gat upp úr hádegi. Eitthvað var ég að tala um að við yrðum einskipa hér á bleyðunni til að byrja með. Það var tóm vitleysa í mér. Hér er allt fullt af Rússneskum verksmiðjuskipum, þannig að við erum ekki alveg einir. Segjum gott í bili og Marri segir yfir og út.
Spakmælið:Neyðin kennir mönnum miklu oftar að ljúga heldur en biðja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2008
21.10.2008 | 07:44
Góðan dag! Erum nú komnir langleiðina á ætluð síldarmið og byrjaðir að leita. Erum einskipa eins og stendur en von er á fleiri skipum næstu daga. Annars ekki mikið að frétta af okkur nema kannski að það var mikill hugur í mönnum um að leigja rjúpnaland. Það var kominn upp nafnalisti og menn beðnir um að skrá sig ef þeir hefðu áhuga á að ver með. Forvígismenn rjúpnaveiða höfðu augastað á landi í "uppsveitum" Grenivíkur og ekkert sparað á að lýsa ágæti veiðisvæðisins. Listinn lengdist með hverjum deginum og hafist var handa við að rukka inn svo allt yrði nú klárt þegar kæmi að tilboðsgjöf í landið. Mikil bjartsýni og tilhlökkun ríkti meðal tilvonandi veiðimanna, nú skildu allir eiga nóg í jólamatinn. En viti menn það gerðist ekkert, síðast þegar fréttist þá var búið að leigja landið einhverjum öðrum. Það gleymdist að bjóða í landið!!!!! Jæja þetta reddast. Og eins og í bankakreppunni þá verður væntanlega enginn dreginn til ábyrgðar. Skora á forvígismennina að skýra sitt mál. Og með því segir Marri yfir og út.
Spakmælið: Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Leiðin langa á miðin.
20.10.2008 | 08:08
Daginn gott fólk:) Þá er að rekja það helsta hér af okkur á Hákoni. Komum til hafnar í Neskaupstað aðfaranótt laugardagsins og lönduðum 80 tonnum í bræðslu og tókum olíu og það mikið af henni. Síðan var fært undir frystilöndun og voru 600 tonnum af heilfrystri síld snarað á land. Löndun lokið um 1900, landfestar leystar, og haldið áleiðis á síldarmið. Síldarmiðin eru að þessu sinni langt frá landinu góða. Stefnan er á norska landhelgi og áætlaður komutími er kl. 8 í fyrramálið, semsagt tveir og hálfur sólarhringur í stím. Alt gott af öllum og Marri segir yfir og út.
Spakmælið:Enginn maður stekkur yfir fjall, en fet fyrir fet kemst maður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á landleið....
16.10.2008 | 07:08
Jæja þá er botninn dottinn úr veiðunum í bili. Ákveðið hefur verið að drífa bara í löndun. Erum búnir að hækka í efsta gat þannig að okkur vantar nú ekki mikið til að fylla. Verðum væntanlega í landi í Neskaupstað seinnipartinn á morgun. Þessi túr var allur tekinn í smugunni og eigum við einn túr eftir þegar síðast fréttist. Annars allt gott af okkur nema hvað að kaffibaunirnar eru að klárast og er verið að græja gömlu könnurnar. Segjum þetta gott í bili og Marri segir yfir og út.
Spakmælið: Ef þú veist ekki hvað þú vilt fá út úr lífinu, hvað heldurðu þá að þú hreppir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)